Rafmyntasjóður

fyrir fagfjárfesta

Viska rafmyntasjóður er fyrsti sérhæfði rafmyntasjóðurinn á Íslandi.

Skrifað þann

Bitcoin: Viðurkenndur fjárfestingarkostur


Þessi grein birtist í ViðskiptaMogganum þann 13. desember síðastliðinn.

Fjárfestingarumhverfi heimsins er að taka miklum breytingum. Eftir áratugi af lækkandi vaxtastigi og lítilli verðbólgu hafa vextir aftur tekið að hækka í kjölfar þess að verðbólga steig aftur fram á sjónarsviðið í Bandaríkjunum í fyrsta skipti í 40 ár. Færa má rök fyrir því að verðbólguhorfur til næstu 10 ára séu mun hærri en við höfum átt að venjast síðustu 10 ár.

Fjárfestar þurfa sífellt að hugsa um hvernig þeir stilla eignasöfn sín af og sögulega hafa skuldabréf gengt stóru hlutverki í söfnun stærri fjárfesta. Hið hefðbundna 60/40 safn hefur verið við lýði í Bandaríkjunum síðustu áratugi en það samanstendur 60% af hlutabréfum og 40% af skuldabréfum.

Breyttar verðbólguhorfur hafa mikil áhrif á skuldabréfamarkaðinn og sagan segir okkur að skuldabréfafjárfestar tapa jafnan verulegum fjárhæðum að raunvirði í verðbólguumhverfi. Ef horft er til Bandaríkjanna þá var mikil verðbólga bæði á 5. áratug síðustu aldar eftir seinni heimsstyrjöld en einnig á 8. áratugnum. Á báðum tímabilum töpuðu skuldabréfafjárfestar miklu.

Þá er eðlilegt að spyrja sig hvernig gátu fjárfestar varið kaupmátt sinn í umhverfi sem þessu. Besta leiðin til þess er að eiga svokallaðar harðar eignir. Gull er einna þekktasta harða eignin og hefur þá eiginleika að vera sjaldgæfur málmur og á bakvið hverja einingu er orka og vinna enda þarf að ná þeim upp úr jörðinni. Gullverð fimmtánfaldaðist frá lægsta til hæsta punkts á árunum 1970-1981 og því var til mikils að vinna fyrir þá fjárfesta sem héldu á gulli en hins vegar sátu fjárfestar sem héldu á skuldabréfum eftir með sárt ennið á þessu tímabili.

Heimurinn er sífellt að þróast og árið 2008 kom fram ný uppfinning sem kallast Bitcoin sem er nýtt peningakerfi sem byggir á fyrirsjáanlegri og óbreytanlegri útgáfuáætlun þar sem endanlegt magn eininga verður 21 milljón. Í dag er búið að gefa út um 19,5 milljónir eininga. Um er að ræða dreifstýrt kerfi þar sem hægt er að senda færslur yfir netið án þess að einhver miðstýrður aðili eða fyrirtæki komi að málum. Bitcoin kerfið er búið að starfa núna óslitið í að verða 15 ár og er öruggasta netkerfi í heimi enda tryggt af milljónum tölva um allan heim sem hafa þann tilgang að keppast um að staðfesta færslur á netinu og fá fyrir það verðlaun í formi rafmyntarinnar Bitcoin.

Það hefur tekið tíma fyrir Bitcoin að sanna sig sem alvöru fjárfestingarkost en nú er svo komið að mörg af stærstu eignarstýringarhúsum heims eru farin að taka Bitcoin alvarlega. Eignarstýringarfyrirtæki eins og BlackRock, Fidelity Investments og Franklin Templeton ásamt 9 öðrum fyrirtækjum sótt um heimild til að setja á fót svokallaðan Bitcoin kauphallarsjóð (e. ETF) til bandaríska verðbréfaeftirlitsins.

Larry Fink, forstjóri stærsta eignastýringafélags heims, BlackRock, hefur talað mjög jákvætt um rafmyntir og telur  að rafmyntamarkaðir séu ígildi stafræns gulls og sé valmöguleiki fyrir fjárfesta m.a. gegn verðfalli hefðbundinna gjaldmiðla. Þá sagði hann að Bitcoin væri alþjóðleg eign og væri raunverulegur fjárfestingarmöguleiki fyrir fjárfesta í dag sem vilja fjárfesta í öðrum en hefðbundnum eignaflokkum.

Fjárfestar eru farnir að horfa á Bitcoin sem stafrænt gull vegna þeirra eiginleika sem Bitcoin hefur. Líkt og með gull er ekki hægt að framleiða nýjar Bitcoin einingar án þess að nota orku og það er mikilvægt vegna þess að ekki er hægt að fá orku úr engu, þ.e. ekki er hægt að svindla á orku sama hvar þú ert staddur í heiminum. Þessi staðreynd er gerólík því sem við þekkjum í hefðbundna peningakerfinu þar sem hægt er að framleiða óendanlegt magn af peningum án þess að leggja fram neina vinnu. Færa má rök fyrir því að harðar eignir munu gegna mikilvægu hlutverki í því efnahagsumhverfi sem framundan er þar sem lausatök í ríkisfjármálum víða um heim og gegndarlaus peningarprentun er líkleg til þess að halda áfram. Þar að auki eru stærstu fjárfestar heims núna loksins að byrja að fjárfesta í Bitcoin sem eykur líkur á því að auka tiltrú og virði Bitcoin verulega á næstu árum.


Höfundur
Daði KristjánssonFramkvæmdastjóri - Meðstofnandi