Rafmyntasjóður

fyrir fagfjárfesta

Viska rafmyntasjóður er fyrsti sérhæfði rafmyntasjóðurinn á Íslandi.

Skrifað þann

BlackRock sækir um að stofna Bitcoin ETF


Einn stærsti eignastýringaraðili heims, BlackRock, hefur sent umsókn til verðbréfaeftirlits Bandaríkjanna (SEC) um stofnun á nýjum kauphallarsjóði (ETF) sem fjárfestir í Bitcoin. Bandaríska rafmyntakauphöllin og vörsluaðilinn Coinbase mun sjá um vörsluna. SEC hefur fram að þessu ekki samþykkt umsóknir um ETF sjóði sem fjárfesta beint í rafmyntum en hefur þó samþykkt ETF sjóði sem fjárfesta í afleiðum (e. futures) á Bitcoin. Tilkoma ETF kauphallarsjóðs í Bandaríkjunum sem fjárfestir beint í Bitcoin myndi marka mikil tímamót fyrir rafmyntaheiminn þar sem fjárfestar gætu þá keypt Bitcoin í gegnum hefðbundna verðbréfamarkaði með hagstæðum hætti.

Á þessum tíma liggur ekki fyrir samþykki frá SEC fyrir stofnun sjóðsins en BlackRock er einn virtasti aðili í heimi eignastýringar og hefur unnið náið með Bandaríska ríkinu og Seðlabanka Bandaríkjanna í stefnumótun og ráðgjöf á fjármálamörkuðum. Þá má einnig nefna að BlackRock hefur sótt um skráningu alls 576 ETF sjóða síðustu áratugi og hefur fengið alla sjóði samþykkta hjá SEC nema einn. Það verður því áhugavert að sjá hvort SEC veiti þessum nýja sjóð samþykki sem yrði stórt skref til að auka aðgengi fjárfesta að Bitcoin.

Tilkoma Bitcoin ETF sjóðs má líkja við tilkomu fyrsta ETF sjóðsins (GLD) sem fjárfestir í gulli sem stofnaður var árið 2004 af State Street. Hann markaði mikil tímamót fyrir fjárfesta sem gátu nú fjárfest í gulli í gegnum hefðbundna fjármálamarkaði með lágum tilkostnaði. Enginn bandarískur ETF sjóður hefur vaxið með sama hraða en í dag stendur hann í um 58,8 milljarða dollara og einn af 20 stærstu ETF sjóðum í heimi.

Fyrr á árinu bætti BlackRock við Bitcoin í sínum stærsta alþjóðlega fjárfestingasjóði, sem er tæplega 19 milljarðar USD að stærð og fjárfestir í fjölbreyttu safni verðbréfa og fjármálaafurða. Sjóðurinn hefur sögulega verið í hópi 33% bestu sjóða í sínum flokki í ávöxtun. Sjá nánari umfjöllun hér.

Larry Fink, forstjóri BlackRock, lét hafa eftir sér á síðasta ári að Bitcoin sé að ná athygli stofnanafjárfesta og ætti raunverulegan möguleika á að taka við hlutverki gulls sem fjárfestingakosts. Larry hefur einnig talað um hvað bálkakeðjutæknin muni verða órjúfanlegur hluti af fjármálamörkuðum þegar verðbréf verða táknvædd (e. tokenized) á næstu árum, eins og Viska fjallaði um í nýlegri frétt sem má sjá hér.


Höfundur
Guðlaugur Steinarr GíslasonFjárfestingastjóri - Meðstofnandi