Rafmyntasjóður

fyrir fagfjárfesta

Viska rafmyntasjóður er fyrsti sérhæfði rafmyntasjóðurinn á Íslandi.

Skrifað þann

Ethereum hækkar 16,5% á tveimur dögum


Eins og frægt er fór Ethereum uppfærslan fram í síðasta mánuði. Um er að ræða mikla breytingu á nýmyndun í Ethereum en þá hætti Ethereum að styðjast við námuvinnslu (e. mining) við færslustaðfestingu og notar í staðinn svokallað „staking“ umbunakerfi. Í grein Visku frá því í september var fjallað um að nýmyndun (verðbólga) gæti lækkað um allt að 90% í rafmyntinni. Nú eru liðnar um 6 vikur frá Ethereum uppfærslunni og fram að þessu hefur nýmyndun verið mun minni en gert var ráð fyrir. Núna í lok október hafa orðið til um 1.200 nýjar einingar (1,8M usd) í Ethereum kerfinu en hefði ella orðið til yfir 500.000 einingar (773M usd). Nýmyndun hefur því minnkað um 99% í stað 90%! Með öðrum orðum er verðbólgan í kerfinu lítil sem enginn í dag.

Mikið hefur dregið úr sveiflum á helstu rafmyntum í október og 20-daga flökt í Bitcoin fór nýlega undir flökt í S&P500 hlutabréfavísitölunni í fyrsta skipti síðan árið 2020. Þá má nefna að flestar rafmyntir fóru ekki niður í lággildi sín í september sem var mjög sveiflukenndur á almennum mörkuðum. Flestar hlutabréfavísitölur, skuldabréf og gull sáu hins vegar lægstu gildi ársins í september. Ein ástæða gæti verið sú að rafmyntamarkaðir byrjuðu núverandi lækkunarhrinu fyrr eða í nóvember 2021 og hafa lækkað hraðar en flestir markaðir það sem af er árinu 2022. Til gamans má þó benda á að 30 ára bresk ríkisskuldabréf voru á tímabili búin að taka út meiri lækkun en Bitcoin þegar verst lét í september. Hér að neðan sjáum við verðþróun á Bitcoin, Ethereum og hlutabréfavísitölum í USA frá byrjun október þar sem sést að Ethereum hefur hækkað töluvert umfram samanburðarhópinn.


Höfundur
Guðlaugur Steinarr GíslasonFjárfestingastjóri - Meðstofnandi