Rafmyntasjóður

fyrir fagfjárfesta

Viska rafmyntasjóður er fyrsti sérhæfði rafmyntasjóðurinn á Íslandi.

Skrifað þann

Ethereum uppfærslan – Einn stærsti atburður í sögu rafmynta


Stærsti viðburður í rafmyntaheiminum til marga ára mun eiga sér stað í nótt. Um er að ræða uppfærsluna á Ethereum þegar kerfið undirgengst breytingu á færslustaðfestingu með því að færa sig úr sannreyningu með vinnu (e. Proof of Work) yfir í sannreyningu með eignarhlut (e. Proof of Stake). Með uppfærslunni fara fram nokkrar lykilbreytingar sem gerir Ethereum kleift að skera sig úr mengi annarra rafmynta með mun ákveðnari hætti, sem er eitthvað sem einungis Bitcoin hefur tekist að gera hingað til.

Hvað breytist?

Í stuttu máli hættir Ethereum að stóla á námuvinnslu (e. mining) við færslustaðfestingu og notar í staðinn svokallað „staking“ umbunakerfi. Staking gengur út á að eigandi ETH rafmyntar getur lagt hana inn í kerfð (e. stake) og fær á móti ávöxtun á eign sína. Ávöxtunin er háð því hversu margir taka þátt í að tryggja netið með þessum hætti en búist er við að hún verði á bilinu 4 - 10% fyrstu mánuðina. Þegar Ethereum var fyrst sett fram voru uppi vangaveltur um að hugmyndafræðin um sannreyningu með eignarhlut gæti tekið við, en það hefur tekið átta ár að koma uppfærslunni í gegn, þar sem það er gífurlegt verkefni að uppfæra fjármálanet í rauntíma.

Orkunotkun fellur um 99.5%

Samhliða breytingunni mun orkunotkun vegna Ethereum kerfisins verða hverfandi, þar sem orkufrek námuvinnsla dettur alfarið út. Helstu tækniframfarir sem hafa komið fram á seinni árum innan bálkakeðjugeirans hafa verið ofan á Ethereum. Hávær gagnrýni fylgir oft í kjölfarið að tæknin sé orkusóði og hreinlega tilgangslaus, þar sem hún keyrir ofan á orkufreku bálkakeðjubákni. Gott dæmi um þetta er NFT (stafrænn eignarhlutur) sem er tækni sem mun valda straumhvörfum í eignarétti á internetinu, en var m.a. afskrifað út af orkunotkun.

Þetta skapar í raun nýja vídd í umræðunni um stærstu bálkakeðjur heimsins. Það verður áhugavert að sjá hvort að Ethereum muni sækja fram á kostnað Bitcoin vegna orkusjónarmiða þegar stofnanafjárfestar fara að fjárfesta í geiranum í auknum mæli. Því má segja að Ethereum sé það nútíma fjármálanet sem hefur hvað sterkustu áherslur á sjálfbærni sem ætti að vekja aukna athygli fjárfesta sem leggja áherslu á ESG mál.

Nýmyndun hríðfellur

Fyrir breytinguna verða til 13.000 ETH á dag vegna umbunar fyrir námuvinnslu og 1.600 ETH á dag í staking umbun. Eftir umbreytinguna verður eingöngu staking umbun áfram en umbunin fyrir námuvinnslu fellur niður. Því lækkar nýmyndunin, sem einnig má kalla verðbólgu, um 90%. Söluþrýstingur frá þeim sem stunda færslustaðfestingu ætti því að falla um a.m.k. $17m á dag, eða yfir $6bn á ári. Eins og margir þekkja helmingast nýmyndun á Bitcoin á 4 ára fresti og því höfum við sögu um hvað gerist þegar rafmyntir verða fyrir umtalsverðum framboðsskelli. Þegar við skoðum söguna þá sjáum við í tilfelli Bitcoin að verðið hefur hækkað verulega í kjölfar helmingunnar á nýmyndun þó það taki jafnan marga mánuði að spilast út. Ethereum er ekki að ganga í gegnum helmingun heldur miklu meira en það, framboð er að dragast saman um u.þ.þ. 90% og því kæmi ekki á óvart að sjá mikil jákvæð áhrif á ETH verðið á næstu mánuðum.

Völd stærri aðila innan kerfisins aukast

Ein helsta gagnrýni á þessa breytingu snýr að öryggissjónarmiði og hve þessi breyting dregur úr dreifstýringu (e. dezentralization) á kerfinu. Eftir breytinguna hafa þeir sem stake-a atkvæðisrétt um breytingar á kerfinu í stað þeirra sem stunda námuvinnsluna eins og í tilfelli Bitcoin.  Ástæðan er m.a. sú að þegar notendur stake-a beint á Ethereum netinu þá undirgangast þeir kröfur um að hafa virka tölvu sem er alltaf tengd kerfinu og þurfa að binda ákveðið magn af ETH í staking. Hins vegar eru fleiri möguleikar til að nálgast ávöxtun með staking sem er í gegnum sérstaka milliði og kallast Liquid staking þar sem notendur geta stake-að hjá viðkomandi aðilum og fengið stóran hluta ávöxtunarinnar og fá á móti aðra rafmynt sem nefnist staked ethereum (stETH). Þetta er rafmynt sem er útskiptanleg á móti ETH hjá þessum milliliðum en einnig er hægt að selja hana á kauphöllum á móti öðrum rafmyntum eða gjaldmiðlum. Gengi stETH/ETH er yfirleitt nálægt 1 en getur sveiflast til ef mikill söluþrýsingur myndast. Með þessu þá leggja milliliðirnir ETH inn í Ethereum kerfið og fara þá með völdin sem fylgir þessu mikla magni af staked ETH. Heildar umfang staked ETH í gegnum þessa milliði telur um 8-9 milljón ETH sem er um 7% af öllu útistandandi magni. Hins vegar er hlutfallið mun hærra ef skoðað er hlutfall af heildar staked ETH. Alls er um 14,4 milljón ETH staked og þetta er því um 2/3 af öllu staked ETH. Lido er t.d. stærsti liquid staking milliliðurinn og er með um 4 milljón ETH staked eins og sést á töflunni hér að neðan.

Öryggi fórnað fyrir sveigjanleika?

Önnur gagnrýni á þessa breytingu er öryggi. Í bálkakeðjufræðum er oft talað um svokallaða meirihlutaárás (e. 51% attack) þegar einhver/einhverjir ná völdum yfir 51% eða meira af atkvæðamagni bálkakeðju til þess að geta tekið ákvarðanir um breytingu á bálkakeðjunni. Í tilfelli Bitcoin þarf að komast yfir meira en 51% af reiknigetu kerfisins, þ.e.a.s. ná stjórn á meirihluta þess búnaðar sem stundar Bitcoin námuvinnslu. Eftir uppfærslu á Ethereum kerfinu mun námuvinnsla leggjast af eins og áður segir og því þarf einungis að ná völdum á 51% af útistandandi ETH til að ná völdum yfir keðjunni. Það má hins vegar velta fyrir sér á hvaða verði viðkomandi þyrfti að greiða fyrir svo stóran hluta af útistandandi ETH. Heildarmarkaðsvirði ETH þegar þetta er skrifað er tæplega 200 milljarðar USD en það er augljóst að það viðkomandi þyrfti að greiða mun hærra verð fyrir þessi ETH með kaupum á öllu þessu magni á eftirmarkaði. Reyndar er það þannig að einungis þarf að eignast yfir helming af öllum ETH sem eru staked hverju sinni til að ráða yfir keðjunni en það erfitt að sjá einhvern aðila geta komið sér í þá stöðu. Þá má benda á þann leikjafræðilega veikleika að ef einhver ætlaði sér að taka yfir kerfið til að hagnast persónulega á því með breytingum væri hætt við því að myntin yrði fljótt verðlaus þegar tilgangur hennar breytist í að þjóna einhverjum annarlegum hagsmunum þess sem ræðst á kerfið.

Til viðbótar við allt framangreint eru ýmsar tæknilegar breytingar með þessari uppfærslu sem á að undirbúa bálkakeðjuna fyrir næstu skref í þróun hennar og á næstu árum eru fyrirhugaðar stórar uppfærslur sem eiga að auka skalanleika hennar og lækka kostnað við notkun netsins (e. gas fees)

Þetta verður gríðarlega spennandi dagur sem rennur nú senn upp og munu meðlimir Visku fylgjast með stöðu mála yfir nóttina og vonandi sjá þessa uppfærslu ganga í gegn án vandkvæða sem yrði stór áfangi fyrir rafmyntaheiminn!


Höfundur
Guðlaugur Steinarr GíslasonFjárfestingastjóri - Meðstofnandi