Rafmyntasjóður

fyrir fagfjárfesta

Viska rafmyntasjóður er fyrsti sérhæfði rafmyntasjóðurinn á Íslandi.

Skrifað þann

Forstjóri BlackRock: Verðbréfamarkaðurinn verður táknvæddur


Larry Fink forstjóri BlackRock segir að næsta kynslóð fyrir markaði og verðbréf verði táknvæðing (e. tokenization) verðbréfa. Þetta eru stór orð komandi frá forstjóra eins stærsta eignarstýringarfyrirtækis í heimi sem er með um 10 trillion dollara í stýringu.

Þetta sagði hann í afar áhugaverðu viðtali á DealBook ráðstefnunni sem haldin var af New York Times í síðustu viku og hægt er að horfa á hér. Fyrir þá sem ekki hafa áhuga á að horfa á allar 24 mínúturnar þá byrjar Larry Fink að ræða þessi mál á minútu 9:30. Fyrir þá sem vilja heyra hann tala um fjárfestingu BlackRock í FTX er best að byrja á mínútu 6:25.

Táknvæðing verðbréfa felur í sér að verðbréf eru gefin út sem tákn sem keyra ofan á bálkakeðjum. Þannig er hægt að framkvæma viðskipti án milliliða ásamt því að gera flóknari uppgjör með snjallsamningum á opnum bálkakeðjuinnviðum. Mest notaði opni bálkakeðjuinnviðurinn í dag er Ethereum en Polygon hefur einnig verið að sækja í sig veðrið, sérstaklega í viðskiptalausnum.

Larry Fink sagði jafnframt að táknvæðing verðbréfa muni tryggja að uppgjör verðbréfaviðskipta fari fram um leið og fjárfestingin er framkvæmd og að þóknanir muni lækka verulega. Til samanburðar krefst verðbréfauppgjör í dag margra milliliða og uppgjör fer jafnan fram tveimur dögum eftir að fjárfestingin á sér stað.

Einnig benti hann á að með notkun þessarar tækni mun verða hægt að halda betur utan um endanlega eigendur (e. beneficial owners) verðbréfa. Þannig verði einfaldara að koma afborgunum skuldabréfa til réttra eigenda og einfaldara verður fyrir eigendur hlutabréfa að nýta atkvæði sín á hluthafafundum, jafnvel þótt eignarhald þeirra sé í gegnum sjóði.


Höfundur
Daði KristjánssonFramkvæmdastjóri - Meðstofnandi