Rafmyntasjóður

fyrir fagfjárfesta

Viska rafmyntasjóður er fyrsti sérhæfði rafmyntasjóðurinn á Íslandi.

Skrifað þann

Tímamót á rafmyntamörkuðum með samþykki SEC á Bitcoin ETF


Einn stærsti atburður í sögu rafmyntageirans átti sér stað í gærkvöldi þegar bandaríska verðbréfaeftirlitið (SEC) samþykkti umsóknir um skráningu á Bitcoin kauphallarsjóðum (ETF) frá 11 eignastýringaraðilum.

Gert er ráð fyrir að sjóðirnir hefji starfsemi strax í dag við opnun markaði í Bandaríkjunum kl. 14.30 á íslenskum tíma. Eitt stærsta fyrirtækið í rafmyntageiranum, Galaxy Digital, hefur gert samantekt (sjá hér) á mögulegum fjárfestingum í þessum sjóðum fyrstu árin og gerir ráð fyrir um 14 milljarða dollara fjárfestingu fyrsta árið og 39 milljarða dollara fyrstu 3 árin. Standard Chartered bankinn gerir ráð fyrir 50 – 100 milljörðum dollara á fyrsta árinu en markaðsvirði Bitcoin er í dag um 900 milljarðar dollara svo um er að ræða stórar fjárhæðir í samhengi við markaðsvirði rafmyntarinnar.

Stærsti eignarstýringaraðili heims, BlackRock, er meðal umsækjenda sem fengu umsókn sína samþykkta í gær. BlackRock er með rúmlega 9 trillion dollara ($9.000.000.000.000) í sinni stýringu. Einnig má finna þriðja stærsta eignarstýringaraðila heims, Fidelity Investments, í þessum hópi sem stýrir eignum upp á 4,2 trillion dollara.

Aðgengi bæði stofnanafjárfesta og einstaklinga að Bitcoin eykst verulega með þessu skrefi. Þetta er jafnframt mikil viðurkenning fyrir Bitcoin sem eign og rafmyntir í heild sem eignaflokk. BlackRock, Fidelity og fleiri hafa þegar sótt um skráningu á Ethereum kauphallarsjóði til SEC og væntingar eru um að þær umsóknir verði samþykktar í vor.

Bitcoin er stærsta rafmyntin og Ethereum sú næst stærsta og þessar tvær rafmyntir eru um 70% af markaðsvirði alls rafmyntamarkaðarins.

Myndin sýnir markaðsvirði helstu rafmynta m.v. 10. janúar 2024


Höfundur
Daði KristjánssonFramkvæmdastjóri - Meðstofnandi