Rafmyntasjóður

fyrir fagfjárfesta

Viska rafmyntasjóður er fyrsti sérhæfði rafmyntasjóðurinn á Íslandi.

Skrifað þann

Fjármagn streymir inn í rafmyntasjóði


Á síðustu vikum hafa skráðir rafmyntasjóðir séð mesta innflæði síðan árið 2021. Þetta sýnir samantekt fyrirtækisins Coinshares sem tekur m.a. saman tölfræði um rafmyntamarkaði. Hér sést yfirlit yfir inn- og útflæði í rafmyntasjóðum eftir vikum og þar sést vel hve mikið fjármagn hefur streymt inn í þessa sjóði síðustu vikur. Samantekt Coinshares er að finna hér.

Líklega kemur þessi aukni áhugi til vegna væntanlegrar tilkomu fyrsta ETF kauphallarsjóðsins sem fjárfestir beint í Bitcoin. Fram að þessu hafa einungis verið til kauphallarsjóðir sem fjárfesta í afleiðum á Bitcoin sem eru alla jafnan lakari kostur sökum aukins kostnaðar. Samþykki Bandaríska fjármálaeftirlitsins (SEC) á fyrsta Bitcoin spot kauphallarsjóðinum yrði því mikil lyftistöng fyrir rafmyntageirann og myndi auðvelda fjárfestum og þá sérstaklega fagfjárfestum að fjárfesta í Bitcoin. Vonir standa til þess að samþykki liggi fyrir eigi síðar en 10. janúar á næsta ári. Sem stendur eru yfir 12 fjármálafyrirtæki sem hafa sótt um stofnun slíks sjóðs, en þar á meðal eru BlackRock, Fidelity, Franklin Templeton, ARK Invest svo dæmi séu tekin.

Viðskipti með afleiður á Bitcoin hafa einnig tekið stökk síðustu vikur. Það sést greinilega á gögnum frá CME kauphöllinni í Bandaríkjunum, sem er stærsta afleiðukauphöll í heimi. Hér sést þróun á fjölda opinna samninga (e. open interest) á Bitcoin á CME kauphöllinni en þau umsvif hafa meira en tvöfaldast á einungis 6 vikum.

Kauphöllin er nú orðin næst stærsti markaður í heimi með afleiður á rafmyntir. Ber þetta merki þess að viðskipti með rafmyntir eru að færast í auknum mæli inn á hefðbundnar kauphallir. Einnig er þetta sterk vísbending um að stofnanafjárfestar séu í auknum mæli farnir að sækja í þennan eignaflokk.

Það stefnir því allt til þess að 2024 verði mjög spennandi ár fyrir rafmyntir. Þar gætum við séð bæði mögulegt samþykki Bitcoin kauphallarsjóðs auk þess sem Bitcoin helmingunin (e. halving) mun eiga sér stað í apríl 2024. Slíkt á sér stað á fjögurra ára fresti í Bitcoin kerfinu þegar nýmyndun nýrra Bitcoin eininga minnkar um helming. Sögulega hafa Bitcoin og margar aðrar rafmyntir hækkað í verði í kjölfarið. Það má því segja að nýr kafli sé að hefjast í rafmyntaheiminum þar sem fjármálafyrirtæki hafa aukið þátttöku sína umtalsvert á sama tíma og fjárfestingar stofnannafjárfesta hafa aukist til muna.


Höfundur
Guðlaugur Steinarr GíslasonFjárfestingastjóri - Meðstofnandi