Rafmyntasjóður

fyrir fagfjárfesta

Viska rafmyntasjóður er fyrsti sérhæfði rafmyntasjóðurinn á Íslandi.

Skrifað þann

MiCA regluverkið samþykkt – jákvætt skref fyrir rafmyntir


Leiðtogaráð Evrópusambandsins samþykkti núna í maí nýtt alhliða regluverk um rafmyntir sem mun verða að lögum í Evrópu og tekur gildi árið 2024. Um er að ræða stórt skref í þeirri vegferð að koma á heildstæðu regluverki um rafmyntastarfsemi eins og aðilar innan og utan geirans hafa lengi kallað eftir. Regluverkið kallast Markets in Crypto Assets (MiCA) og skapar grundvöll fyrir starfsemi fyrirtækja á þessu sviði innan Evrópu og með því stuðlar að framþróun og fjárfestingu í geiranum.

Einn helsti drifkraftur nýsköpunar og samkeppnishæfni á milli markaða er skýrleiki regluverksins. Fyrirsjáanlegt regluumhverfi er undirstaða þess að tryggja þátttöku fjárfesta og fyrirtækja í geiranum. Með tilkomu MiCA regluverksins er Evrópa að leggja grunninn að því að laða að frumkvöðla og fjárfesta frá öllum heimshornum.

MiCA regluverkið gerir kröfu um skráningu allra fyrirtækja sem starfa á þessu sviði og þurfa þau að uppfylla ýmsar reglur, þar á meðal gegn peningaþvætti og kröfur um neytendavernd. MiCA skapar einnig umgjörð um útgáfu stöðugleikamynta.

Tilgangur MiCA

MiCA regluverkið hefur verið þróað af Evrópusambandinu með nokkra helstu drifkrafta í huga:

  • Í fyrsta lagi miðar það að því að veita öflugan lagaramma fyrir rafmyntir sem falla utan gildissviðs gildandi fjármálaþjónustulöggjafar eins og MiFID, og stuðla þannig að réttaröryggi.
  • Í öðru lagi leitast það við að hvetja til vaxtar rafmyntageirans með því að skapa öruggt og réttlátt regluumhverfi sem styður nýsköpun og sanngjarna samkeppni.
  • Í þriðja lagi miðar regluverkið að því að vernda neytendur, fjárfesta og heilindi markaðarins með því að takast á við hugsanlega áhættu sem tengist rafmyntum.
  • Að lokum miðar það að því að tryggja fjármálastöðugleika með því að fela í sér öryggisráðstafanir til að stýra hugsanlegri áhættu fyrir fjármálakerfið.

Að auki veitir MiCA skýrleika og fyrirsjáanleika fyrir fyrirtæki og stofnanir sem leitast við að taka þátt í rafmyntageiranum, með víðtækum leiðbeiningum fyrir margvíslega starfsemi, allt frá útgáfu tákna (e. token issuance) til þjónustuveitenda sem framkvæma viðskipti, vörslu og aðra rafmyntatengda þjónustu.

Helstu atriði sem MiCA tekur á

Hér má sjá yfirlit yfir helstu þætti sem MiCA regluverkið fjallar um:

  • Skráning hjá yfirvöldum: Rafmyntafyrirtæki þurfa að skrá sig hjá fjármálaeftirliti í því landi sem það starfar. Þau eru síðan undir eftirliti Evrópsku bankaeftirlitsstofnuninni (European Banking Authority) og Evrópsku verðbréfamarkaðs-eftirlitsstofnunarinnar ESMA (European Securities and Markets Authority). Þegar fyrirtæki hafa skráð sig í sínu heimalandi þá fá þau samtímis starfsleyfi í öllum löndum innan Evrópusambandsins.  
  • Ráðstafanir vegna peningaþvættis: Hér verða rafmyntafyrirtæki sett undir sömu kröfur og fjármálafyrirtæki og verður skylt að fara eftir reglugerðum gegn peningaþvætti (AML). Þetta mun hjálpa til við að koma í veg fyrir notkun rafmynta í glæpsamlegum tilgangi.
  • Neytendavernd: Rafmyntafyrirtækjum verður gert að veita neytendum skýrar og greinagóðar upplýsingar um áhættuna sem fylgir fjárfestingu í rafmyntum. Þetta tryggir því að neytendur séu meðvitaðir um áhættuna sem því fylgir.
  • Stöðugleikamyntir: MiCA býr til umgjörð fyrir útgáfu stöðugleikamynta, sem eru rafmyntir sem eru tengdar eru hefðbundnum gjaldmiðli eins og evru eða Bandaríkjadal. Þetta mun hjálpa við að tryggja stöðugleika og draga úr áhættu þessara mynta.
  • Markaðsmisnotkun: MiCA mun fela í sér ráðstafanir til að koma í veg fyrir markaðsmisnotkun á rafmyntamörkuðum. Þetta mun hjálpa til við að tryggja að rafmyntamarkaðir séu skilvirkir og gagnsæir.
  • Umhverfisáhrif: MiCA mun krefjast þess að rafmyntafyrirtæki upplýsi um umhverfisáhrif af starfsemi þeirra sem skapar hvata til stunda umhverfisvæna starfshætti.

Mikil umræða hefur átt sér stað undanfarið víða um heim um nauðsyn þess að heildstætt regluverk um rafmyntir sé lagt fram þar sem mörg fyrirtæki hafa starfað í óvissu og yfirvöld gefið takmörkuð leiðbeinandi fyrirmæli um hvernig starfsemi skuli háttað á þessu sviði. Sem dæmi má nefna lagaumhverfið í Bandaríkjunum þar sem leikreglur eru ekki nægilega skýrar. Þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir rafmyntafyrirtækja þar í landi um leiðbeiningar og túlkanir þá hafa fjármálayfirvöld (SEC) staðið auðum höndum og kosið að beita málsóknum í stað þess að móta regluverk í samráði við fyrirtækin sem nú þegar starfa í geiranum.

Með því að samþykkja MiCA regluverkið sýnir Evrópa vilja sinn í að vera leiðandi á þessu sviði og þannig ná að lokka til sín fleiri fyrirtæki í rafmyntageiranum með tilheyrandi verðmætasköpun fyrir svæðið. Áhugavert verður að fylgjast með því hvernig önnur svæði í heiminum bregðast við.

Í dag eru fleiri reglugerðir í undirbúningi í Evrópu sem munu byggja á MiCA regluverkinu og má sjá dæmi um þær í hlekk hér að neðan:
https://www.dlnews.com/articles/regulation/mica-is-not-the-only-crypto-law-in-the-eu/

Ítarefni
Umfjöllun Coinbase um MiCA þar sem m.a. er fjallað um að Evrópa sé að taka fram úr öðrum löndum varðandi rafmyntageirann með því að vera fyrst til að samþykkja heildstætt regluverk um geirann:

https://www.coinbase.com/blog/europe-is-winning-will-the-us-catch-up

Áhugaverð umfjöllum Patrick Hansen um MiCA regluverkið:

https://paddihansen.substack.com/p/the-eus-mica-framework


Höfundur
Daði KristjánssonFramkvæmdastjóri - Meðstofnandi