Rafmyntasjóður

fyrir fagfjárfesta

Viska rafmyntasjóður er fyrsti sérhæfði rafmyntasjóðurinn á Íslandi.

Skrifað þann

Stefnubreyting hjá FED – Peningaprentun komin á fullt


Uppfærðar tölur um stöðu efnahagsreiknings Seðlabanka Bandaríkjanna (FED) voru birtar í gær. Óhætt er að segja að hægt sé að merkja mikla stefnubreytingu bankans þegar tölurnar eru skoðaðar.

Áður en lengra er haldið er vert að benda á grein sem birt var sjóðfélögum Visku í byrjun september í fyrra. Í greininni er fjallað ítarlega um þróun á efnahagsreikningi FED frá árinu 2009. Greinina má lesa hér en í henni kemur m.a. eftirfarandi fram:

„Einn stærsti áhrifavaldur á fjármálamörkuðum er seljanleiki (e. liquidity). Rafmyntamarkaðurinn er engin undantekning. Seðlabankar hafa gríðarlega mikil áhrif á seljanleika í kerfinu og nota aðferðir eins og magnbundna íhlutun sem er jafnan kallað QE (Quantitative Easing) þegar verið er að auka seljanleika og QT (Quantitative Tightening) þegar dregið er úr seljanleika. Seðlabankar auka seljanleika í kerfinu með því að kaupa verðbréf á markaði, yfirleitt skuldabréf, og minnka seljanleika með því að selja verðbréf.“

Heimild: https://fred.stlouisfed.org/series/WALCL

Efnahagsreikningur FED náði hámarki í apríl í fyrra og stóð þá í rétt tæplega 9 trillion USD. Frá þeim tíma hefur FED verið að vinna í að minnka efnahagsreikning sinn í því skyni að herða fjármálaleg skilyrði. Lækkunin frá apríl 2022 til 8. mars 2023 nam um 600 milljörðum USD sem kann að hljóma mikið en er þó ekki nema tæplega 7% lækkun á efnahagsreikningi bankans.

Nýjustu tölurnar sem birtar voru í gær voru heldur betur áhugaverðar en þá jókst efnahagsreikningur FED um 300 milljarða USD milli vikna! Með öðrum orðum, peningaprentunin er kominn aftur á fulla ferð.

Í þessu samhengi er gaman að rifja upp orð Ben Bernanke frá árinu 2010 (seðlabankastjóri FED á árunum 2006-2014):

„I think we would like to bring the balance sheet back to where it was before the crisis, [...], something undir a trillion dollars“

Óhætt er að segja að þessi orð eldist mjög illa. Efnahagsreikningurinn er búinn að margfaldast frá þessum tíma og stendur í rúmlega 8,6 trillion USD í dag.

Visku teymið hefur kafað djúpt ofan í þessi mál undanfarna mánuði og vert er að benda á greinina hans Guðlaugs sem kallast „Seðlabankar heimsins í kröppum dansi“ sem birt var í Viðskiptablaðinu í október 2022. Hægt er að lesa greinina hér. Þessi orð úr greininni eiga mjög vel við núna:

„Heimssagan á sér mörg dæmi um ósjálfbæra skuldastöðu þjóðríkja sem hafa beitt peningaprentun til þess að fjármagna stríð og halla á ríkisfjármálum. Flest þessara fordæma eru á þann veg að ósjálfbær skuldastaða sé leiðrétt með langvarandi verðbólgutímabilum með tilheyrandi rýrnum á kaupmætti íbúa viðkomandi landa.“

Hvatarnir í kerfinu er einfaldlega þannig að peningaprentun er leiðin sem er valin þegar eitthvað bjátar á. Núna hriktir í stoðum bankakerfisins í Bandaríkjunum og FED hefur gripið inn í til að bjarga málunum og ræsir með því peningaprentvélarnar aftur. Sagan segir okkur að þessi þróun er bara að fara halda áfram.

Hvers virði eru peningar sem hægt er að prenta í óendanlegu magni án nokkurra hindrana?


Höfundur
Daði KristjánssonFramkvæmdastjóri - Meðstofnandi